Menning

Sumarferð á slóðir Leifs heppna

Vestfjarðaleið hefur boðið upp á ferð til St. John á hverju hausti og vegna eftirspurnar hefur einni sumarferð verið bætt við. Flogið er í beinu flugi til St. John á fimmtudagskvöldið 11. ágúst og flogið til baka föstudagskvöldið 19. ágúst, en flugið tekur um rúmar þrjár stundir.

Ýmislegt verður í boði fyrir ferðalangana í St. John og má þar nefna skipulagða sex daga rútuferð með leiðsögn á víkingaslóðir þar sem verður farið í þjóðgarðinn L’Anse aux Meadows þar sem Leifur heppni er talinn hafa komið þegar hann fann Ameríku árið 1000. Fyrir gönguáhugafólk verður í boði gönguferð í þjóðgarðinum Grose Morne á vesturströnd Nýfundnalands sem er sannkallað meistaraverk frá náttúrunnar hendi. Þarna er einnig kjörið að stunda golf, göngur, veiði og kajaksiglingar svo eitthvað sé nefnt.

Skógræktarfélag Íslands mun jafnframt nýta sér flugið og gangast fyrir kynnisferð um Nýfundnaland þar sem lögð er áhersla á að skoða fjölbreytta náttúru þessa áhugaverða lands, þjóðgarða, skóga og skógrækt. Sköpuð eru tengsl við heimamenn sem sjá um leiðsögn en íslenskir náttúrufræðingar eru fararstjórar. Frekari upplýsingar er að finna á vefsíðunni vesttravel.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×