Innlent

Óskar eftir uppgjöri í framsókn

Vaxandi óánægja er innan Framsóknarflokksins með framgöngu formannsins, Halldórs Ásgrímssonar, í þeim málum er ríkisstjórnin hefur tekist á hendur. Sömu framsóknarmenn eru að sama skapi ósáttir við vinnubrögð þeirra sem næst standa Halldóri innan flokksins og má nefna þar bræðurna Árna og Pál Magnússyni og Björn Inga Hrafnsson. "Valdabrölt í klíkunni innan flokksins er fyrir neðan allar hellur," segir Sveinn Bernódusson, formaður Félags framsóknarmanna í Bolungarvík. Viðmælendur blaðsins, sem ekki vildu láta nafns síns getið, lýstu vinnubrögðum bræðranna í tengslum við Freyjuna, félag framsóknarkvenna í Kópavogi, á dögunum á þann hátt að bræðurnir litu á Framsóknarflokkinn sem hlutafélag og þeir stefndu á yfirtöku á öllum hlutum þess. "Mikið af fólkinu sem hefur sig lítið í frammi í flokknum er mjög óánægt," segir Sveinn. "Framsóknarflokkurinn hefur farið út af brautinni og má nefna Íraksmálið því til stuðnings." Viðmælendur blaðsins sögðu að skýrar línur væru milli fylkinganna tveggja innan flokksins og að átök þeirra á milli myndu aukast eftir því sem nær dragi flokksþinginu. "Ég vona að þetta leiði til uppgjörs þannig að menn geti farið að byrja upp á nýtt. Ég vonast til þess að tekist verði á um það á flokksþingi hvað menn ætla sér með flokkinn. Það er þá hægt að gefa þeim kost á því sem ekki eru sáttir að fara bara ef þeir ætla að halda þessu áfram," segir Sveinn. "Ég held að það sé býsna rétt sem Steingrímur Hermannsson, fyrrverandi formaður, sagði í Silfri Egils, að Davíð Oddsson hafi tekið ákvörðunina um stuðninginn við Íraksstríðið og Halldór hafi stutt hann til að halda friðinn," segir Sveinn. "Ég man ekki eftir því að í stefnuskrá flokksins sé að finna ýmislegt sem flokkurinn stendur nú fyrir, til dæmis sameining lögregluembættanna eða hækkun orkuverðs. Þessi ríkisstjórn hefur gleymt gjörsamlega öllu sem er utan Reykjavíkursvæðisins."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×