Menning

Dansinn er mín ástríða

"Að mínu mati er dansinn besta líkamsræktin," segir Guðrún Inga Torfadóttir dansari sem kennir freestyle-dans í líkamsræktarstöðinni Laugum. Tímarnir hjá Guðrúnu eru fyrir alla auk þess sem hún er með sérstaka tíma fyrir þá sem eru komnir yfir 16 ára aldur. Samkvæmt henni þarf fólk ekki að kunna neina undirstöðu áður en það kemur í tímana enda snýst þetta mest um að hreyfa sig og hafa gaman. "Mér finnst freestyle skemmtilegasta dansformið enda er þetta mjög fjörugt," segir Guðrún Inga og bætir við að dansinn sé afar svipaður því sem við sjáum á tónlistarsjónvarpsstöðinni Mtv. Guðrún Inga kennir dansinn ásamt Nönnu Ósk Jónsdóttur dansara en þær semja allt sjálfar en fá góðan innblástur frá stjörnunum á Mtv. Guðrún Inga útskrifaðist úr nútímadansbraut Listadansskóla Íslands en hefur verið að dansa síðan hún man eftir sér og er því með afar breiðan grunn. Hún er einnig að klára lögfræðina í Háskóla Reykjavíkur og stefnir á mastersnám að því loknu. "Ég hef alltaf verið bæði í námi og skóla og þannig held ég góðu jafnvægi. Í rauninni held ég að ég gæti ekki verið án dansins því hann gefur mér svo mikið." Samkvæmt Guðrúnu Ingu eru karlmenn mun feimnari við dans heldur en kvenfólk. Hún hefur þó fengið nokkra í tíma til sín og segir þá hafa haft gaman af. "Þeir voru að fíla sig mjög vel en það vantar stórlega stráka í þetta. Mér finnst ótrúlegt að þeir skuli ekki prófa þetta en það eru bara einhverjir fordómar hér á landi. Dans er algjörlega fyrir bæði kynin en þetta er bara einhver feimni í strákunum." Guðrún Inga býr með kærastanum sínum, Vali Sævarssyni sem kenndur er við hljómsveitina Buttercup. "Við Valur höfðum lengi kannast við hvort annað en byrjuðum ekki saman fyrr en fyrir nokkrum mánuðum þannig að þetta var löng fæðing. Í rauninni leist okkur ekkert á hvort annað í byrjun, fundumst við svo ólíkar týpur, en svo kom bara allt annað í ljós." Lestu ítarlegt viðtal við Guðrúnu Ingu í tímaritinu Magasín sem fylgir DV í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×