Innlent

Áreitninefnd starfandi hjá Reykjavíkurborg

Sérstök áreitninefnd er starfandi vegna áreitni sem starfsmenn Reykjavíkurborgar, sérstaklega þeir sem starfa að félagsmálum, verða fyrir. Tilvikin geta skipt tugum á ári.

Bæklingi um einelti og áreiti hefur verið dreift til allra starfsmanna Reykjavíkurborgar sem hjálpar fólki meðal annars að meta hvenær það verður fyrir áreiti og hvernig það skuli bregðast við. Áreitni getur komið frá samstarfsfólki eða frá þeim sem njóta þjónustu borgarinnar. Helst eru það starfsmenn sem vinna við félagsþjónustu sem verða fyrir áreiti en frá árinu 1997 hafa orðið frá níu upp í þrjátíu og eitt tilfelli á ári.

Hallur Páll Jónsson, starfsmannastjóri mannauðsdeildar hjá Reykjavíkurborg, segir að unnið hafi verið að þessu á sumum sviðum borgarinnar frá árinu 1997. Talsverð reynsla sé komin á þetta þar, til dæmis hjá þeim sem starfað hafi að félagsþjónustu og velferðarmálum. Þar hafi starfað áreitniteymi sem hafi tekið á málum þegar þau koma upp.

Hallur segir að það alvarlegasta geti falist í beinu ofbeldi gegn starfsmönnum. Það sé sem betur fer sjaldgæft. Í nokkrum tilvikum hafi verið um að ræða hótanir sem hafi verið teknar alvarlega og séu tilkynntar til lögregla. Áreitnin geti verið frá aðdróttunum og dólgslegri framkomu til hótana og ofbeldis.

Áreitni getur valdið mikilli vanlíðan og þeir sem fyrir áreitni verða býðst í öllum tilvikum áfallahjálp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×