Innlent

Stjórnvöld þögul um framtíð hátækniiðnaðarins

Stjórnvöld þegja þunnu hljóði um hugsanlegar aðgerðir til að gera starfsumhverfi hátæknifyrirtækja hér á landi bærilegra. Á meðan er tugum starfsmanna sagt upp og mörg fyrirtækjanna hyggjast flytja starfsemi sína úr landi.

Forsvarsmenn íslenskra hátæknifyrirtækja segjast búa við afar slæmt vinnuumhverfi hér á landi. Nærri helmingi starfsmanna eins þessara fyrirtækja, Hjartaverndar, var sagt upp í gær. Fyrirtækið hefur undanfarin ár unnið að öldrunarrannsókn sem bandarísk heilbrigðisyfirvöld kosta. Forstöðumaður Hjartaverndar, Vilmundur Guðnason, sagði í samtali við fréttastofu NFS í gær að vegna óhagstæðrar gengisþróunar hér á landi hafi kostnaðurinn við rannsóknina aukist umfram það fjármagn sem upphaflega var gert ráð fyrir að myndi duga, og því var gripið til uppsagnanna. Og Vilmundur sagði að stjórnvöld yrðu að grípa til einhverra aðgerða ef mögulegt ætti að vera að halda áfram starfsemi hátæknifyrirtækja hér á landi. Samtök iðnaðarins, sem funduðu með stjórnvöldum á dögunum, hafa einnig kallað eftir aðgerðum, sem og forsvarsmenn Samtaka íslenskra sprotafyrirtækja.

Eitt fyrirtæki, Flaga, hefur þegar flutt starfsemi sína úr landi og mörg önnur innan hátæknigeirans íhuga slíkt hið sama. Ekkert hefur heyrst frá stjórnvöldum hvað þau hyggist gera í málinu. Iðnaðarráðherra neitaði að tjá sig um málið við fréttastofuna í dag þegar eftir því var leitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×