Erlent

Nektardans sé list eins og ballet

Nektardansstaðir í Noregi unnu í dag sigur á skattayfirvöldum þegar dómstóll í Osló komst að þeirri niðurstöðu í dag að nektardans væri list líkt og ópera og ballet og því þyrftu nektardansstaðir ekki að greiða virðisaukaskatt af seldum miðum frekar en leikhús. Skattayfirvöld höfðu farið fram á rúmlega eina milljón norskra króna, andvirði 10 milljóna íslenskra króna, frá strípiklúbbnum Bláa Englinum í Osló vegna ógreidds virðisauka. Héldu þau því fram að nektardansmeyjar væru ekki listamenn og að fólk sækti sýningarnar vegna nektarinnar, ekki listar. Því þyrfti að greiða 25 prósenta virðisaukaskatt af miðum á sýningar þeirra. Lögmenn nektardansstaðarins héldu því hins vegar fram að það krefðist listrænna hæfileika að klæða sig úr t.d. lögreglu- og hjúkrunarfræðingabúningum og á þau rök féllst dómstóllinn. Reuters-fréttastofan segir eigendur nektardansstaða fagna niðurstöðunni og segja hana bæta rekstrarskilyrði staðanna til muna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×