Innlent

Varðskipin á sjó frekar en í bíó

"Ég tel að full þörf sé fyrir öll varðskipin í vinnu og þau ættu í raun ekki að fást við neitt annað," segir Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands. Varðskipin Óðinn og Týr tóku þátt í tökum á kvikmyndinni Flags of our fathers með Clint Eastwood við Stóru Sandvík á Reykjanesi um helgina. Skipin lágu að mestu við akkeri meðan á tökum stóð og voru notuð sem leikmynd að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. "Þátttaka skipanna í bíómynd er mér að meinalausu svo lengi sem hún truflar ekki störf þeirra að öðru leyti," segir Sævar. "Hins vegar tel ég alls ekki veita af því á Reykjaneshrygg og víðar að þau séu að störfum." Landhelgisgæslan fékk um eina milljón króna á dag fyrir þátttöku skipanna við tökur myndarinnar og fær greitt fyrir tvo daga að sögn Dagmar Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar. Dagmar segir gott hafi verið að fá þá fjármuni inn í reksturinn auk þess sem lítill tilkostnaður hafi fylgt verkefninu þar sem skipin hafi legið við akkeri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×