Innlent

Vinna kauplaust og svelta heilu hungri

Brasilískir verkamenn. Þeir voru sagðir vera sérfræðingar frá fyrirtækinu Brazilian Gypsium. Mennirnir kannast ekkert við það og fulltrúar Trésmíðafélags Reykjavíkur telja þjónustusamninginn ekki vera fokheldan.
Brasilískir verkamenn. Þeir voru sagðir vera sérfræðingar frá fyrirtækinu Brazilian Gypsium. Mennirnir kannast ekkert við það og fulltrúar Trésmíðafélags Reykjavíkur telja þjónustusamninginn ekki vera fokheldan.

"Það var vinur Magnúsar í Brasilíu sem réð okkur. Magnús hafði samband við hann. Við höfum verið tvo mánuði án launa, október og nóvember," segir Paulo Alves frá Receefe í Brasilíu.

Alves er einn tíu manna frá Receefe sem verið hafa í vinnu hjá fyrirtækinu Nýgifs sem er í eigu Magnúsar Guðmundssonar. Fimm þeirra hafa gefið sig fram við Trésmíðafélag Reykjavíkur og kvartað sáran undan illri meðferð vinnuveitandans. Þeir eru nú á heimleið.

"Raunin er sú að þeir hafa soltið heilu hungri. Þetta eru fimm menn. Svo eru aðrir fimm sem af einhverjum ástæðum eru enn að vinna. Magnús er með einhvern mjög dularfullan þjónustusamning sem hann kallar svo og framvísar," segir Halldór Jónasson, ­starfsmaður hjá Trésmíðafélagi Reykjavíkur, en félagið hefur tekið mennina fimm upp á arma sína.

Halldór segir Magnús hafa fengið leyfi fyrir mennina frá Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun í skjóli þess að um þjónustusmning sé að ræða. Mennirnir voru sagðir vera sérfræðingar frá fyrirtæki sem kallað var Brazilian Gypsium. Magnús segir mennina ekkert kannast við slíkt fyrirtæki.

"Ég er að undirbúa skaðabótakröfu upp á milljónir," segir Magnús Guðmundsson, eigandi Nýgifs. Hann gefur þó ekki upp hvern hann ætli að lögsækja. Magnús segir það vera fjarri lagi að hann sé einhvers konar þrælahaldari. Hann segist hafa greitt þeim hverjum og einum 250 þúsund krónur í mánaðarlaun og veitt þeim góðan aðbúnað á gistiheimili á Akranesi og í leiguíbúð í Kópavogi. Þeir hafi síðan launað sér greiðann með því að valda stórtjóni á vinnustað. Einn hafi meira að segja gerst svo frakkur að stela af sér bíl, klessukeyra aðra bíla og stinga svo af. Hann kveðst í þokkabót hafa fengið hótanir frá afrískum vini mannanna.

"Þessir strákar hafa ekkert landvistarleyfi. Þeir koma inn á þjónustusamningi sem er að öllum líkindum ekki fokheldur. Þetta er eitthvað sem Magnús hefur bara búið til. Þetta er glæpsamlegt, ekkert annað," segir Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Trésmíða­félags Reykjavíkur.

Magnús Guðmundsson varð þekktur fyrir nokkrum árum þegar hann framleiddi heimildarmynd gegn málstað Grænfriðunga og mælti fyrir hvalveiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×