Innlent

Eitt til tvö banaslys á ári

Vélsleðamenn. Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur farið þess á leit við yfirvöld að sérstakur slysaflokkur um vélsleðaslys verði búinn til.
Vélsleðamenn. Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur farið þess á leit við yfirvöld að sérstakur slysaflokkur um vélsleðaslys verði búinn til.

"Kerfið býður ekki upp á það að haldið sé utan um vélsleðaslys því þau eiga sér engan slysaflokk," segir Kjartan Benediktsson, umferðarfulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Umferðarstofu. "Samkvæmt því sem við komumst næst, sem höfum verið að rannsaka þetta, eru þetta svona um eitt til tvö banaslys á ári ef við tökum meðaltalið af síðustu tíu árum.

Hvað slys varðar er hreinlega ekki hægt að segja til um tíðnina. Við höfum reynt að taka þetta saman í samvinnu við tryggingafélögin og lögreglu en alltaf fellur þetta í hina ýmsu flokka og engin leið er að fá botn í þetta," segir hann.

"Nú hefur Rannsóknarnefnd umferðarslysa farið þess á leit við yfirvöld að gerður verði sérstakur slysaflokkur fyrir vélsleðaslys en þangað til af því verður er lagt til að nefndin fái að vita af öllum vélsleðaslysum," bætir hann við. Landsbjörg og Umferðarstofa gáfu nýverið út bækling um öryggismál vélsleðamanna. Kjartan segir að flest slysin verði þegar veður er bjart og stillt. "Helsti slysavaldurinn má kannski teljast ofmat manna á eigin getu en vanmat á aðstæðum," segir hann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×