Innlent

Frumvarp auðveldar breytingar á RÚV

Ráðherra kynnir drög að frumvarpi. Samkvæmt drögunum verða  ríkishlutafélög líkari hlutafélögum á almennum markaði.
Ráðherra kynnir drög að frumvarpi. Samkvæmt drögunum verða ríkishlutafélög líkari hlutafélögum á almennum markaði.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag drög að frumvarpi til breytinga á lögum um hlutafélög. Ekki er ljóst hver áhrif lagabreytinganna yrðu á félög á borð við Íslandspóst sem er að öllu leyti í eigu ríkisins.

Nái breytingin fram að ganga er talið að það geti flýtt fyrir því að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag. Lagt er til að tekin verði upp í lög sérákvæði varðandi hlutafélög sem eru að fullu í eigu hins opinbera.

Meðal annars er að finna skilgreiningu á opinberu hlutafélagi, ákvæði um stjórnarsetu og skýrslugerð stjórnarmanna um eign þeirra í félögum. Jafnframt eru ákvæði um upplýsingaskyldu og sambærilega stöðu hlutafélaga í opinberri eigu og annarra félaga sem skráð eru á verðbréfamarkaði.

Sérstök lagaákvæði hafa verið sett sem snerta hlutafélög í eigu ríkisins og fela í sér undanþágur frá almennum leikreglum hlutafélagalaga. Þannig hefur iðnaðarráðherra á undanförnum árum fengið heimildir til að stofna hlutafélög í eigu ríkisins.

Nefna má lög um hlutafélagavæðingu Sementsverksmiðjunnar og stofnun Landnets hf. sem annast raforkuflutninga um landið.

Fyrirmynd að breytingunum er sótt meðal annars til nágrannalandanna. Í danskri og norskri hlutafélagalöggjöf er að finna sérákvæði sem einvörðungu ná til opinberra hlutafélaga. Þessi sérákvæði varða ýmsar tilkynningar, upplýsingagjöf, aðgang fjölmiðla að aðalfundi og fleira.

Í dönskum lögum um ársreikninga er jafnframt að finna nokkur dreifð ákvæði um opinber hlutafélög, meðal annars um efni ársreikninga og afhendingu ársskýrslu til fréttamanna.

Sérákvæði eru í norskri hlutafélagalöggjöf um hlut kvenna í stjórnum félaganna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×