Innlent

Valdabrölt á stjórnarheimilinu

Íbúðalánasjóður. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, ítrekar styrka stöðu sjóðsins á blaðamannafundi í síðustu viku. Kenningar eru á lofti um að skeytasendingar á milli Lánasýslu ríkisins og Íbúðalánasjóðs beri vott um pólitískt valdabrölt Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Íbúðalánasjóður. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, ítrekar styrka stöðu sjóðsins á blaðamannafundi í síðustu viku. Kenningar eru á lofti um að skeytasendingar á milli Lánasýslu ríkisins og Íbúðalánasjóðs beri vott um pólitískt valdabrölt Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Í síðustu viku kom í ljós að mikil átök eru á milli stjórnarflokkanna um hver ætti að stjórna Íbúðalánasjóði. Sjóðurinn, sem heyrir undir félagsmálaráðuneytið, er eina fjármálastofnunin sem framsóknarmenn stjórna. Nú vilja sjálfstæðismenn að sjóðurinn heyri undir fjármálaráðuneytið.

Íbúðalánasjóður komst í fréttirnar í liðinni viku þegar haft var eftir Þórði Geir Jónassyni, forstjóra Lánasýslu ríkisins, að ekki væri unnt að svara spurningum um ríkisábyrgðir til sjóðsins vegna þess að niðurstöður úttektar á fjárhagsstöðu sjóðsins væru ekki fyrirliggjandi.

Þetta töldu æðstu stjórnendur sjóðsins að túlka mætti sem svo að fjárhagsstaða hans væri óljós. Guðmundur Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, boðaði í kjölfarið til blaðamannafundar til þess að ítreka styrka stöðu sjóðsins. Þetta taldi Guðmundur vera áríðandi enda gæti vafi um stöðu sjóðsins haft slæm áhrif á lánshæfismat hans, og hugsanlega ríkissjóðs í kjölfarið, enda er sjóðurinn í eigu ríkisins og þau fyrirtæki sem leggja mat á lánshæfi sjóðsins eru þau sömu og meta lánshæfi ríkissjóðs.

Illskiljanleg skeyti

Þessar yfirlýsingar og efasemdir um stöðu sjóðsins virtust illskiljanlegar í fyrstu þar sem engar augljósar skýringar var að finna á þessum skeytasendingum í fjölmiðlum milli tveggja ríkisstofnana.

Við nánari athugun kom þó í ljós að um einhvers konar valdabrölt var að ræða. Í kjölfar blaðamannafundarins skaut hver heimildarmaðurinn á fætur öðrum upp kollinum og töluðu þeir allir í þá veru að hér væri um langtímamarkmið embættismanna í fjármálaráðuneytinu að ræða. Hugmyndin væri að ná starfsemi Íbúðalánasjóðs til Lánasýslu ríkisins og þar með undir stjórn fjármálaráðuneytis í stað félagsmálaráðuneytis. Lánasýslan væri kjörin til þessa, einmitt vegna þess að umsvif hennar hefði farið minnkandi í kjölfar minni útgáfu á skuldabréfum ríkissjóðs.

Það var einnig haft á orði að endanlegt markmið með þessum hugmyndum væri að færa starfsemi sjóðsins alfarið á hendur banka og sparisjóða. Hugmynd sem sjálfsagt er góðra gjalda verð, en hefur ekki opinberlega verið kynnt af stjórnvöldum. Lykilorðið hér er einkavæðing.

Eftir hverju er að slægjast?

Íbúðalánasjóður hefur um árabil fjármagnað fasteignakaup þegna landsins með lánveitingum. Þessi starfsemi kallar á umsýslu með stórar fjárhæðir sem miklu máli skipta í hagkerfi landsins. Svo dæmi sé nefnt hafa landsmenn greitt upp 158 milljarða króna af lánum hjá Íbúðalánasjóði eftir að bankarnir hófu að veita húsnæðislán á miðju ári í fyrra. Þannig má ljóst vera að allar ákvarðanir um starfsemi og framtíð sjóðsins geta verið afdrifaríkar.

Ágreiningur á milli hverra?

Íbúðalánasjóður heyrir undir félagsmálaráðuneyti. Félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, er þingmaður Framsóknarflokksins. Framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, Guðmundur Bjarna­son, var á sínum tíma ráðherra fyrir Framsóknarflokkinn.

Fjármálaráðherra, Árni Matthiesen, er þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Lánasýsla ríkisins er stofnun sem heyrir undir fjármálaráðuneytið. Og þótt Árni Matthiesen hafi ekki setið lengi á stóli fjármálaráðherra, eru í fjármálaráðuneytinu embættismenn sem hafa yfirsýn yfir starfsemi þess og eru vel handgengnir Sjálfstæðisflokknum.

Að þessu töldu mætti ætla að hér sé um valdaágreining milli stjórnarflokkanna að ræða.

Til er sá maður

Ráherrarnir tveir, Árni og Árni, hafa kosið að tjá sig lítið um málið á opinberum vettvangi enda ekki líklegt að þeir vilji verða fyrstir manna til að koma upp um núning á stjórnarheimilinu.

Til er sá maður sem framsóknarmenn hafa sín í millum nefnt yfirráðherra Sjálfstæðisflokksins. Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, hefur í gegnum tíðina verið lykilmaður í einkavæðingu ríkisfyrirtækja, einu af helstu stefnumálum Sjálfstæðisflokksins. Árni Magnússon félagsmálaráðherra var í vikunni spurður hvort það gæti staðist að valdabrölt með Íbúðalánasjóð ætti rætur sínar að rekja til embættismanna í fjármálaráðuneytinu. Úr svari ráðherrans mátti lesa að ekki aðeins ætti þetta við rök að styðjast, heldur einnig, að úr þessum áformum yrði aldrei nokkuð með samþykki framsóknarmanna.

Ekki þarf að orðlengja það að embættismenn í fjármálaráðuneytinu hafa kosið að tjá sig ekki um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×