Innlent

Tollgæslan tók jólasteikurnar

Lögreglan á Eskifirði lagði í fyrrakvöld hald á rúmlega hálft tonn af hráu kjöti sem fjórtán skipverjar á Jóni Kjartanssyni SU og Hólmaborginni SU reyndu að smygla til landsins. Tollgæslan á Eskifirði fann matvælin við komu skipanna frá Færeyjum.

"Þetta er ein umfangsmesta tilraun til smygls á matvælum síðari ár," segir Aðalsteinn Guðmundsson hjá tollgæslunni. Hann segir að matvælin verði brennd og að skipverjarnir eigi von á sektum.

Haukur Björnsson hjá Eskju, útgerð skipanna, segir ekki verða eftirmál af hálfu útgerðarinnar. "Þetta eru bara strákar að reyna að bjarga sér um smávegis af kjöti fyrir jólin," segir hann og kveðst frekar líta á málið sem sjálfsbjargarviðleitni manna sem verið hafi tekjulausir vegna aflaleysis mánuðum saman.

"Manni finnst að tollurinn ætti frekar að snúa sér að alvarlegri málum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×