Innlent

Situr að verkefnum borgarinnar

Einkahlutafélagið Vélamiðstöðin, sem er alfarið í eigu Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur, hefur fengið greiddar um 350 milljónir úr borgarsjóði fyrir verkefni sem ekki voru boðin út. Framundan er stórt útboð á vegum Sorpu að verðmæti um 600 milljóna króna og hefur Vélamiðstöðin verið valin í hóp fimm fyrirtækja sem líklegust eru til að hreppa verkið. Haustið 2002 var Vélamiðstöð Reyjkavíkur breytt í Vélamiðstöðina ehf. Síðan þá hefur Vélamiðstöðin fengið fjölmörg verkefni án útboðs hjá eiganda sínum, Reykjavíkurborg. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa greiðslur úr borgarsjóði vegna þessara verkefna numið um 350 milljónum króna. Meðal verkefna sem fyrirtækið hefur fengið með þessum hætti eru sorphreinsun, snjómokstur og vélaleiga. Einkaaðilar sem keppa á þessum markaði hafa kvartað yfir þessu og bent á að fyrirtæki í eigu hins opinbera njóti betri kjara á lánamarkaði en önnur fyrirtæki. Þá sé alls óvíst hvort markaðsverð ráði greiðslum til fyrirtækisins frá opinberum aðilum þegar því eru fengin verkefni án útboðs. Samkeppnisstaðan sé því mjög ójöfn. Stjórnarformaður Vélamiðstöðvarinnar er Stefán Jóhann Stefánsson, sem áður var formaður stjórnar Innkaupastofnunar Reykjavíkurborgar, en auk hans sitja í stjórn fyrirtækisins Björn Ingi Sveinsson, borgarverkfræðingur, og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar. Í gær voru opnuð tilboð í verkefni á vegum Sorpu og átti Vélamiðstöðin lægsta boð í einn hluta þess. Stjórnarformaður Sorpu, Alfreð Þorsteinsson, er jafnframt stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, annars eigenda Vélamiðstöðvarinnar. Framundan er útboð í flutning og vélavinnu fyrir móttöku Sorpu í Gufunesi. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins koma 600 milljónir króna í hlut þess fyrirtækis sem hreppir verkið. Vélamiðstöðin hefur verið valin í lokahóp fimm fyrirtækja og mun verkið að koma í hlut eins þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×