Innlent

Hestaferð þvert yfir landið

Hópur hestamanna lauk tæplega 800 kílómetra ferð þvert yfir landið í dag. Ekki er hægt að ríða lengri leið yfir landið, frá Langanesi og allt vestur á Reykjanestá. Þessi 18 til 20 manna hópur og 60 hestar réðust ekki á garðinn þar sem hann var lægstur, enda var farið hratt yfir og riðnir um 50 kílómetrar á dag. Fréttastofan hitti hópinn við Kleifarvatn í Krísuvík í dag, þegar lagt var upp í síðasta áfangann. Ferðin tók 18 daga, en tveir dagar inn á milli voru notaðir í hvíld. Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, var einn leiðangursmanna. Hann sagði leiðina fyrst og fremst hafa verið valda sem ögrun og til að gera eitthvað sem ekki hafi verið gert áður. Kjarninn í hópnum hafi ferðast mikið saman í gegnum tíðina. Ferðin gekk mjög vel og slysalaust. Hópurinn naut góðs af veðurblíðunni undanfarna daga, á 18 dögum hefur aðeins ringt í tíu mínútur. Yngstu reiðmennirnir voru rétt orðnir tólf ára, sá elsti sex sinnum eldri, eða 71 árs gamall.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×