Innlent

Norsk strandgæsla um borð í skip

Norskir strandgæslumenn fóru um borð í íslenskt fiskiskip, sem er á síldveiðum við Svalbarða, og tilkynntu skipstjóranum formlega að öll íslensk skip, sem ekki væru farin af svæðinu fyrir miðnætti á sunnudag, yrðu tekin sem landhelgisbrjótar. Norskir fjölmiðlar segja að átök séu í uppsiglingu á verndarsvæðinu við Svalbarða á milli íslenskra fiskiskipa og norsku strandgæslunnar. Búast megi við að íslensk skip verði tekin þar fyrir landhelgisbrot og þau færð til norskra hafna, þar sem réttað verði yfir áhöfnunum. Tvö norsk varðskip eru þegar komin á svæðið. Nokkur íslensk skip eru þar að síldveiðum en Norðmenn segja að kvótinn, sem þeir úthlutuðu erlendum skipum samtals á svæðinu sé upp urinn og þar með kvóti íslensku skipanna. Íslendingar viðurkenna hinsvegar ekki yfirráðarétt Norðmanna á svæðinu og vilja útvegsmenn að látið verið reyna á það fyrir alþjóðlegum dómstól. Útvegsmenn réðu ráðum sínum á fundi í gær og ætla ótrauðir að halda veiðunum áfram, að sögn Friðriks Arngrímssonar, framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útvegsmanna. Hann segir menn einhuga um að halda veiðum áfram og að fyrir því sé skýr pólitískur stuðningur á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×