Innlent

Gott uppgjör hjá Marel

Sex mánaða uppgjör Marels sýnir töluvert betri niðurstöðu en greiningardeildir bankanna gerðu ráð fyrir. Hagnaður af rekstrinum á öðrum ársfjórðungi nam 2,54 milljónum evra (um 220 milljónir króna) en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður af rekstrinum 1,7 milljónum evra. Það sem af er ári er hagnaður Marels 3,8 milljónir evra sem er meira en á öllu árinu í fyrra. Gengi bréfa í Marel hækkuðu um 7,7 prósent í Kauphöll Íslands í gær. Það sem af er ári hefur verð á bréfum í félaginu ríflega tvöfaldast. Hörður Arnarson, forstjóri Marels, segist vera ánægður með uppgjörið og að bætt rekstrarstaða sé komin til af betri framlegð. Veltan hafi aukist og kostnaður lækkað. Félagið hefur náð mörkuðum í kjötiðnaði og segir Hörður vöxt félagsins vera fyrst og fremst í kjötiðnaði. Hann leggur þó áherslu á að ekki sé lesið um of í rekstrarafkomuna á þessum fjórðungi. „Þetta er náttúrlega stutt tímabil. Sex mánuðir eru ekki langur tími í sögu fyrirtækis,“ segir hann. Í tilkynningu frá félaginu segir að verkefnastaða sé „þokkaleg“ um þessar mundir og að unnið sé að styrkingu á sölu og markaðskerfi á gömlum og nýjum mörkuðum félagsins. Hann segir Marel leggja áherslu á lausnir fyrrir minni framleiðendur sem hafa verið að ná góðum árangri og eins í stærri verkefnum fyrir matvælafyrirtæki. Marel hefur unnið að því undanfarin sex til átta ár að skapa sér markaðsstöðu í kjötiðnaði en upphaflega framleiddi Marel tæki til notkunar í fiskiðnaði. „Þessi markaður [kjötiðnaður] er mjög stór og hefur verið að vaxa þó nokkuð á síðustu árum,“ segir Hörður. Ytri aðstæður í rekstri Marels hafa ekki verið hagstæð. Hörður segir að þróun gengis Bandaríkjadals skipti miklu fyrir félagið en á síðustu misserum hefur Bandaríkjadalur verið ódýr. Hækki hann í verði hefur það jákvæð áhrif á afkomu Marels.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×