Innlent

Miðborgin á Menningarnótt

Búast má við umferðtöfum í miðborginni og nágrenni vegna dagskrár Menningarnætur á laugardag. Götum verður lokað og er fólk hvatt til að nýta sér almenningsvagna. Menningarnótt er nú haldin í níunda sinn. Strætó ekur á öllum leiðum til klukkan eitt um nóttina. Vagnarnir munu ekki aka um Hverfisgötu og Lækjargötu og verður biðstöð þeirra í miðborginni í Vonarstræti. Lækjargata verður alveg lokuð fyrir allri umferð. Þá verða Vonarstræti og Fríkirkjuvegur aðeins opinn fyrir Strætó. Hverfisgata verður lokuð frá klukkan tíu um morguninn en hægt verður að komast í bílastæðahúsið Traðarkot með aðkomu frá Ingólfsstræti og Klapparstíg. Milli klukkan ellefu og tólf verða Tryggvagötu og Geirsgötu lokað vegna skemmtiskokks. Mörg bílastæðahús verða opinn til klukkan fjögur um nóttina, án endurgjalds. Þau eru Traðarkot á Hverfisgötu gengt Þjóðleikhúsinu, Vitatorg við Lindargötu, Ráðhúskjallarinn við Tjarnargötu og Bergsstaðir við Bergsstaðastræti. Einnig er hægt að leggja bílum án endurgjalds á bílastæðum milli Alþingis og Oddfellow með aðkomu frá Tjarnargötu og um Skothúsveg. Opnað verður fyrir bílastæði í Kolaportinu eftir klukkan þrjú um daginn. Fólki er líka bent á að nýta sér bílastæði við Háskóla Íslands og Íslenska erfðagreiningu. Þá eru einnig bílastæði við Kjarvalsstaði og á Skólavörðuholti sem auðvelt er að komast að. Útisalerni verða meðal annars á Amtmannsstíg við Menntaskólann í Reykjavík, á Reykjavíkurhöfn og Ingólfsstræti. Þá eru salerni á miðstöð Strætó við Hafnarstæti og Bankastræti núll verður opið til klukkan þrjú um nóttina. Þá er hægt að komast á salerni á Vesturgötu 7 frá klukkan níu um kvöldið til klukkan tvö um nóttina. Týnd börn verða í húsnæði miðborgarprests í risinu að Austurstræti 20 og verður opið þar til klukkan hálf tólf um kvöldið. Hjólastólar verða lánaðir hreyfihömluðum og öldruðum á Höfuðborgarstofu við Aðalstræti 2. Eirberg lánar hjólastólana sem þó eru í takmörkuðu magni og er fólki því bent á panta hjólastól tímalega í síma 590-1500. Þá mun ferðaþjónusta fatlaðra halda út akstri til miðnættis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×