Innlent

Virkjunin fljót að greiða upp land

Það tæki Kárahnjúkavirkjun aðeins nokkra mánuði að greiða upp virði þess lands sem fer undir virkjunina, segir Landsvirkjun, ef það er tveggja milljarða króna virði eins og rannsóknir þýsks hagfræðidoktors sýna fram á. Að mati Davids Bothe,þýsks hagfræðidoktors sem rannsakað hefur málið er landið sem fer undir Kárahnjúkavirkjun tveggja milljarða króna virði, að minnsta kosti, en upphæðin gæti þó verið tvöfalt til þrefalt hærri. Tveir milljarðar eru þó aðeins tvö prósent af þeim tæplega hundrað milljörðum sem virkjunin kostar og hefði ekki velt þungu hlassi við fjármögnun, segir Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar, sem vill þó líta á málið frá þjóðhagslegum forsendum. Hann segir að auðvitað séu öll náttúruverðmæti í eigu þjóðarinnar, og auðvitað sjái hún eftir þegar rask verður í náttúrunni. Líta verði á hvað þjóðin fái í sinn hlut á móti. Með þessum framkvæmdum séu stjórnvöld að nýta orkuauðlind til að efla atvinnu og afla þjóðinni gjaldeyristekna. Ef sett í slíkt samhengi vegi tvær milljónir lítið. Við framkvæmdina í heild sinni sé verið að auka brúttóútflutning frá Íslandi um 13 %, eða 30-40 milljarða. Af þeim segir Sigurður marga milljarða sitja eftir á Íslandi sem hreinar nettó gjaldeyristekjur og það komi þjóðinni til góða. Svo er það raforkusalan frá Kárahnjúkavirkjun. Þegar búið verður að greiða niður allar skuldir eftir þrjá til fjóra áratugi, myndi það aðeins taka örfáa mánuði, svona í kringum ársþriðjung, að greiða niður þess tvo milljarða með raforkusölu. En Sigurður segir að auðvitað sé erfitt að meta náttúrufegurð til fjár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×