Innlent

Ráðamenn geta ekki gleymt fortíð

Íslenskir ráðamenn voru stoltir af stuðningi Íslendinga við stríðið í Írak þegar vel virtist ganga, og því geta þeir ekki nú sagst horfa til framtíðar, aðspurðir um ábyrgð Íslendinga á gangi mála í Írak. Þetta er mat heimspekings sem skoðað hefur siðferðilegar hliðar Íraksstríðsins. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna viðurkennir að ástandið í Írak fari versnandi. Colin Powell útilokar kosningar miðað við óbreytt ástand. Sömu sögu er að segja af fulltrúum Sameinuðu þjóðanna. Kofi Annan segir að stríðið hafi verið lögbrot. Enn ein skýrsla vopnaeftirlitsmanns staðfestir að gjöreyðingarvopn sé ekki að finna í Írak - og breskir sérfræðingar héldu því sama fram ári fyrir stríð. Forsendur stríðsins í Írak virðast standa veikum fótum. Þegar Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra var spurður um ábyrgð þeirra þjóða sem studdu þetta stríð, svaraði hann Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur á þessa leið: "Ég vil ekkert vera að fjalla frekar um það. Ég tel mikilvægast að horfa nú til framtíðar. Ég held það geti allir verið sammála um það að það þurfi að hjálpa þessari þjóð og það þurfi að hjálpa henni til lýðræðis. Og það geta allir verið sammála um það að það er gott að Saddam Hussein er farinn frá og við eigum ekki að dvelja svona mikið við fortíðina eins og verið er að gera." Ólafur Páll Jónsson, heimsspekingur, segir að íslenskir ráðamenn geti ekki firrað sig ábyrgð á liðnum atburðum, þó að gott sé að horfa til framtíðar. Ekki sé hægt að slá striki yfir liðna atburði, Íslendingar geti það hvorki né afbrotamaður sem kemur fyrir rétt. Hann geti ekki sagt að best sé að horfa bara til framtíðar og gleyma því sem liðið er. Ólafur segir að aðeins sé hægt að bera því fyrir sig að upplýsingar hafi verið rangar ef gengið hafi verið úr skugga um áreiðanleika þeirra upplýsinga. Hann segir að að svo miklu leyti sem íslenskir ráðamenn hrósuðu sér af bandalagi hinna staðföstu þegar vel gekk, eigi þeir einnig að bera ábyrgðina þegar útlitið er neikvætt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×