Innlent

Ekki alveg ótamarkað niðurhal?

Tímamót í netsögu Íslands segja forsvarsmenn fyrirtækisins IPNets, sem bjóða nú fyrstir allra ótakmarkað niðurhal frá útlöndum. Hjá öðrum netþjónustufyrirtækjum eru menn þó fullir efasemda. Undanfarna daga hefur mátt sjá auglýsingar frá fyrirtækinu HIVE, þar sem boðið er upp á ókeypis, ótakmarkað download, eða niðurhal eins og það heitir á íslensku. Fram til þessa hafa flestir ef ekki allir íslensku netþjónustuaðilarnir aðeins selt ákveðið gagnamagn með ADSL-tilboðum sínum, svo að þeir sem heimsækja erlendar heimasíður mikið og hala sér niður efni af erlendum netþjónum hafa oft þurft að greiða gjald fyrir umframmagn. En hjá IP fjarskiptum, sem á og rekur HIVE, segja menn slíka gjaldtöku óþarfa. Arnþór Halldórsson hjá HIVE segir að skrefagjaldið sé fellt niður og fólk geti því notað netið ótakmarkað fyrir ákveðið mánaðargjald. Það sé mikil bandvídd til út úr Íslandi í dag og því sé þetta hægt. Á spjallsíðum á Netinu hafa komið fram efasemdir um að niðurhalið sé algjörlega ótakmarkað og svör Arnþórs eru nokkuð loðin. Hann segir engar beinar takmarkanir settar, en fyrirtækið áskilji sér rétt til þess að takmarka notkun ef hún komi niður á notkun annarra, en til þess hafi þó aldrei komið hingað til. Hann segir að heildarhagsmunirnir verði alltaf að ráða og því sé þessi réttur áskilinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×