Innlent

Framkvæmdir loks stöðvaðar

Magnús Sædal byggingarfulltrúi stöðvaði fyrst í gær framkvæmdir við nýtt hótel í gamla Eimskipafélagshúsinu. Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála felldi byggingarleyfið úr gildi fyrir rúmum hálfum mánuði og taldi það ekki eiga lagastoð. Magnús segist gera ráð fyrir að hægt verði að gefa út nýtt leyfi 8. desember og framkvæmdir geti þá hafist að nýju. Það voru nágrannar hótelsins sem kærðu útgáfu byggingaleyfisins. Magnús Sædal segir að úrskurðurinnn hafi komið mjög á óvart. Hann segist ekki hafa stöðvað framkvæmdir um leið og úrskurður féll, þann 11. nóvember, en hann fól í sér að um ólögmætan gerning væri að ræða, þar sem nauðsynlegt hafi verið að skoða hvaða framkvæmdir við hótelið væru nýjar framkvæmdir og leyfisksyldar. Þá segir Magnús ennfremur að skoða þurfi hvaða áhrif úrskurður úrskurðarnefndar skipulags og byggingamála hefði á sambærileg mál frá því í janúar 1998, nauðsynlegt gæti reynst að breyta lögum. Magnús segir sumt af framkvæmdinni vera hreina viðhaldsvinnu og það þurfi að fara yfir málin og skoða það nánar hvað fólst í úrkurðinum. Hann segir ekki geta svarað því hvort verið sé að ganga á rétt kærenda, en hann sjái ekki að þeir eigi lögvarinn rétt í málinu. Núna sé staðan sú að deiliskipulagsbreyting hafi verið samþykkt og reiknað sé með samþykki húsanna í næstu viku. Málið fari svo fyrir borgarstjórn þann 8. desember og þá sé komið nýtt byggingaleyfi. Magnús segir að þeir sem séu að framkvæma seu að verða fyrir tjóni ef framkvæmdir tefjist og sá kostnaður geti hlaupið á einni milljón á dag. Málið var rætt í borgarráði í fyrradag en þar gagnrýndu sjálfstæðismenn að framkvæmdir hefðu ekki verið stöðvaðar um leið og leyfið var fellt úr gildi. Gísli Helgason fulltrúi Frjáslynda flokksins í borgarráði segir að byggingafulltrúinn hafi sagt að framkvæmdirnar væru í lagi þar sem húsin í nánasta nágrenni hótelsins yrðu rifin samkvæmt nýju skipulagi. Magnús Sædal segir þetta rangt. Hann segist aldrei hafa sagt að það ætti að rífa hús nágrannans, enda sómi það sér ágætlega í borgarmyndinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×