Innlent

Tveir reikningar Valgerðar

Skipulagsstofnun segir að með rafskautaverksmiðju í Hvalfirði verði losunarheimildum Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni nærri náð. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segir þetta þó ekki koma í veg fyrir álver á Norðurlandi þar sem sú mengun færist á annan reikning. Skipulagsstofnun hefur nýlega fallist á smíði rafskautaverksmiðju á Katanesi í Hvalfirði. Í úrskurði hennar kemur fram að heildarlosun koltvísýrings frá verksmiðjunni verði um 125.000 tonn á ári. Með þessari viðbót, og miðað við útstreymisspá íslenskra stjórnvalda fyrir viðmiðunartímabil Kyotobókunarinnar, muni losunarheimildum Íslands á tímabilinu vera nærri náð, segir Skipulagsstofnun, og telur að áður en leyfi verði veitt fyrir rekstrinum þurfi að liggja fyrir hvort og hvaða mótvægisaðgerðir stjórnvöld telji nauðsynlegar til að vega upp á móti útstreymi gróðurhúsalofftegunda frá rafskautaverksmiðjunni.  Iðnaðarráðherra segir þetta ekki trufla áform um aðra stóriðju. Útblástur rafskautaverksmiðju skráist sem viðbót á almennan mengunarkvóta Íslands en ekki á stóriðjukvótann. Hún segir mjög miklvægt að það fari á annan reikning og það sé mjög miklvægt og við eigum þó nokkuð mikið inni á hinum reikningnum, sem sé stóriðjureikningurinn. Valgerður segir að hið séríslenska ákvæði í Kyoto-bókuninni þýði að það teljist jákvætt að framleiða ál á Íslandi með hreinni orku. Hún segir þetta vera annars konar starfsemi en Stóriðju og minna mengandi og því sé ekki litið á hana sem slíka. Hún segir alltaf áhugavert að fjölga störfum hér á landi og það sé ánægjulegt að verksmiðjan gefi 140 störf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×