Innlent

Forsætisráðherrar á prent

Ákvörðun Davíðs Oddssonar um að selja Björgólfi Guðmundssyni og samstarfsmönnum hans ráðandi hlut í Landsbankanum er ein sú örlagaríkasta sem hann hefur tekið á stjórnmálaferli sínum. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ritverkinu Forsætisráðherrar Íslands. Davíð tók við fyrsta eintakinu í Þjóðmenningarhúsinu í dag.  Ritverkið Forsætisráðherrar Íslands, ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar í 100 ár, er gefið út í tilefni af hundrað ára afmæli Stjórnarráðsins, en frá því stjórnarráðið var stofnað, 1. febrúar 1904, hafa 24 menn gegnt embætti forsætisráðherra og áður ráðherra Íslands. Tuttugu og fjórir höfundar voru fengnir til þess að fjalla um hvern ráðherranna, í stuttum og aðgengilegum köflum. Höfundar leituðust við að fjalla um bakgrunn viðkomandi einstaklinga, persónueinkenni og hugsjónir, og ekki síst sérstöðu þeirra sem stjórnmálamanna. Kaflarnir eru misjafnlega langir, en í ritinu er reynt að varpa ljósi á það hvaða áhrif mennirnir 24 hafa haft á þróun landsins. Meðal annars er greint frá helstu baráttumálum ráðherranna og frá átökum og helstu sviptingum á ráðherratíð þeirra. Júlíus Hafstein, formaður ritnefndar verksins, afhenti Davíð Oddssyni, forsætisráðherra, fyrsta eintakið, en ritstjóri verksins segir mikla ánægju með útkomuna. Ólafur Teitur Guðnason, ritsjóri verksins segir bókina mjög aðgengilega og hún ætti að vera skemmtileg aflestrar og fólki muni finnast skemmtilegt að kynna sér sögu þessarra 24 manna. Um suma þeirra viti margir ekki mikið, en nú sé þetta orðið mjög aðgengilegt



Fleiri fréttir

Sjá meira


×