Innlent

Krafist 290 milljóna í bætur

Fjórir menn hafa verið ákærðir af ríkislögreglustjóra fyrir brot á útvarpslögum sem framkvæmdastjórnarmenn Kaplavæðingar ehf. Mennirnir fjórir eru sakaðir um að hafa tekið á móti læstum útsendingum frá átta erlendum sjónvarpsstöðvum, opnað þær með myndlyklum, í þeim tilgangi að veita einstaklingum sem ekki voru áskrifendur aðgang að sjónvarpsútsendingunum. Efninu eru fjórmenningarnir sagðir hafa dreift til allt að 1650 manns í Reykjanesbæ gegn endurgjaldi og án heimildar. Einn mannanna er ákærður fyrir að hafa brotið gegn útvarpslögum með þessum hætti frá árinu 2000 en hinir frá árinu 2002. Lögreglan stöðvaði útsendingar félagsins um miðjan janúar síðastliðinn. Er þess krafist að mennirnir verði dæmdir til refsingar. Þá er þess einnig krafist að einkahlutafélögin Kapalvæðing og DVD margmiðlun, sem mennirnir eru í forsvari fyrir, verði dæmd til upptöku á átta myndlyklum, myndmótorum og lykilkortum sem lagt var hald á við rannsókn málsins. Norðurljós gera þá kröfu að Kapalvæðingu og mönnunum fjórum verði gert að greiða félaginu rúmar 290 milljónir í bætur. En Norðurljós voru búin að kaupa sýningarrétt á efni sem sýnt var í kapalkerfinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×