Innlent

Viðtökur fram úr björtustu vonum

Viðtökur íslensks viðmóts Windows XP stýrikerfisins og Office 2003 skrifstofuhugbúnaðarvöndulsins meðal almennings voru betri en við var búist, að sögn Elvars Steins Þorkelssonar, framkvæmdastjóra Microsoft á Íslandi. "Viðtökurnar hafa farið fram úr okkar björtustu vonum," segir hann, en íslensku útgáfurnar voru fyrst kynntar í haust. Elvar Steinn segir að viðmóti Office hafi verið hlaðið um 6 þúsund sinnum niður af netinu, auk þess sem geisladiskum hafi verið dreift í verslunum og víðar. "Gróflega áætlum við að tvöfaldur þessi fjöldi heimila sé kominn með íslenskt viðmót." Elvar segir hins vegar erfiðara að ráða í hver notkunin er meðal fyrirtækja, en til standi á nýju ári að mæla þá notkun. Hann segist frekar hafa á tilfinningunni að viðtökurnar hafi verið dræmari á fyrirtækjasviðinu, þó svo að vitað sé um nokkur fyrirtæki sem fagnað hafi íslensku útgáfunum. Elvar segist vita til þess að sums staðar hafi tæknimenn lagst gegn breytingunni af ótta við tæknilega örðugleika og telur að þar sé komin fram arfleift fyrri þýðingar á Windows 98 stýrikerfinu sem var mjög misheppnuð. "En þetta byggir á allt öðrum grunni og er laust við vandamálin sem fylgdu Windows 98," segir hann og bætir við að víða hafi íslenskar útgáfur verið teknar upp í skólum og látið vel af, auk þess sem eldra fólk hafi tekið íslenskunni fagnandi. "Svo er fólk jafnvel að uppgötva nýja hluti af því að það skilur valmyndina betur en áður."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×