Innlent

Vilja vita verð símtala fyrirfram

Erfitt er fyrir neytendur að vita hvað þeir greiða fyrir símnotkun fyrr en eftir á, segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Samtökin krefjast að greitt verði úr því. Fjölmargir hafi haft samband vegna hárra símareikninga. "Við viljum að fólk fái viðvörun þegar hringt er úr einu kerfi í annað því þar með er fólk að borga meira," segir Jóhannes. Fundað hafi verið með Póst- og fjarskiptastofnun sem skoði málið. Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir að full ástæða til að gera kostnað símafyrirtækja sýnilegri. Sá mikli verðmunur sem sé milli fyrirtækjanna verði ekki til lengdar. Hann skapist meðal annars af því símafyrirtækin borgi hvort öðru þjónustugjöld þegar hringt sé milli kerfanna. Mikill verðmunur sé á gjöldunum. Og Vodafone greiði 8,92 krónur til Símans þegar hringt sé milli kerfa en Síminn greiði 12.10 til Og Vodafone. "Þetta eru heildsöluverð og ber ekki að rugla við smásöluverð," segir Hrafnkell: "Við teljum langtímasjónarmið fyrir neytendur að jafna beri þjónustugjöld símfyrirtækjanna." Slíkt skref hafi til dæmis verið stigið í Svíþjóð í vikunni. Jóhannes segir vandamálið hafa sprottið upp eftir að númeraflutningur milli fyrirtækjanna var leyfður. Áður hafi fólk vitað að númer sem hæfust á tölunni sex væru hjá Og Vodafone og átta hjá Símanum. Pétur Pétursson, forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála hjá Og Vodafone, segir það í hag fyrirtækisins að fólk viti í hvort kerfið það hringi þar sem viðskiptavinir þeirra greiði lægri gjöld. Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir það stafa af mismun á heildsöluverði fyrirtækjanna. Póst- og fjarskiptastofnun hafi ekki séð ástæðu til að íhlutast um verð þrátt fyrir óskir Símans. Það sé ósigur neytenda: "Það skiptir höfuðmáli fyrir viðskiptavini að gjaldið sem þeir greiða fyrir símtöl á milli kerfa sé hið sama, hvort sem þeir hringja úr kerfi Símans til Og fjarskipta eða öfugt."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×