Lífið

Vaskar upp í víðóma

"Mér finnst langskemmtilegast að vaska upp," viðurkennir Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður með meiru, og hlær skemmtilega við þegar hann er spurður af hverju svo er. "Ég verð einfaldlega svo afskaplega stoltur af sjálfum mér þegar ég er búinn með verkið." Ekki segist Páll Óskar taka sig til við vaskinn fyrr en allt er í óefni komið og viðurkennir að draga verkið á stundum. "Nei, þetta fer ég yfirleitt í þegar leirtauið hefur þróað sitt eigið vistkerfi, en þá einhendist ég í málið af fullum krafti." Og Páll Óskar segist vaska upp í stereó. "Ég taldi mér trú um að nú hefði ég slitið út burstanum og fór því og keypti mér nýjan um daginn. Þegar heim var komið sá ég að skelfileg mistök höfðu átt sér stað og ég því kominn með tvo slíka. Ég sit því uppi með tvo rosalega flotta og get vaskað upp í víðóma." Þar með er þó ekki allt upptalið, því Páll Óskar fer aldrei einn í verkið. "Diskótónlist verð ég að hafa meðan á uppvaski stendur og því skelli ég alltaf Donnu Summer í tækið þegar ég dúndra mér í gang. Hún er sannkölluð uppvasksdíva og kemur mér ekki einungis í gang, heldur fylgir mér á leiðarenda gegnum uppvaskið."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×