Lífið

Skúlptúrar og málverk

Blómaverslunin Holtablóm skipti um eigendur fyrir ári og nýi eigandinn, Inga María Sverrisdóttir listakona, hefur í rólegheitum unnið að breytingum í rekstrinum. Verslunin verður þó áfram með blóm og gjafavörur á boðstólum en Inga María, sem lauk námi frá Listaháskóla í Englandi fyrir tveimur árum, hefur innréttað aðstöðu í versluninni til að sinna listsköpun sinni og er með eigin verk til sölu. "Upphaflega hugmyndin var að vera með vinnustofu uppi og hafa blómin og gjafavöruna sem aukabúgrein," segir Inga María. "Svo uppgötvaði ég auðvitað að það er meira en að segja það að vera með blómabúð, svo það er ekki fyrr en núna sem ég er búin að koma mér upp aðstöðu. Við rifum niður veggi og útbjuggum skrifstofuaðstöðu og vinnuhorn. Það sem mig dreymir um er að geta verið meira í myndlistinni og jafnvel fá mér brennsluofn til að brenna skúlptúrana mína." Í versluninni eru til sölu skúlptúrar og málverk eftir Ingu Maríu, en að auki er hún með íslensk handunnin kerti frá Jöklaljósum í Sandgerði og glerverk eftir Dröfn Guðmundsdóttur. "Svo eru náttúrlega jólin framundan og ég er með fallega birkikransa frá Egilsstöðum sem fólk getur fengið skreytta eða skreytt sjálft. Þeir eru afar fallegir bæði sem jólakransar eða haust- og heilsárskraut. Þá bjóðum við að sjálfsögðu upp á hefðbundnar blómaskreytingar og blóm við öll tilefni, fyrir utan hverskyns gjafavöru. En sjón er sögu ríkari. Holtablóm er á Langholtsvegi 126.
Skúlptúr eftir Ingu Maríu.
Blómaskreytingar og kerti eru til í miklu úrvali í Holtablómum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×