Innlent

Lítil viðbrögð við þráðlausu kerfi

Lítil pólitísk umræða hefur orðið um tilboð fjarskiptafyrirtækisins eMAX sem hefur sagst geta sett upp ódýra lausn á dreifikerfi internetsins fyrir landsbyggðina. Stefán Jóhannesson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, segir að nokkrir þingmenn hafi haft samband við hann þegar fjallað var um fyrirtækið í fjölmiðlum fyrr í vetur til að fá upplýsingar um tæknina sem fyrirtækið notar. eMax hefur byggt upp þráðlaust dreifikerfi í Borgarfirði, á Suðurlandi og í Hvalfirði. Stefán sagði á sínum tíma að eMax treysti sér til að setja upp og reka öflugt dreifikerfi fyrir landsbyggðina fyrir mun lægri upphæð en það myndi kosta Símann. Stefán segir að þetta hafi breyst eftir að Síminn hóf sjónvarpsrekstur með Skjá einum. Eftir það hafi fyrirtækið farið með dreifikerfið í smærri bæjarfélög en áður var gert ráð fyrir. Það breyti því þó ekki að smæstu byggðarlögin verði skilin eftir. Stefán segir að stjórnmálamenn ættu að drífa af stað verkefni með eMAX til að tengja þær við internetið og sjónvarpssendingar. Stefán segir að sendingar á Suðurlandi gangi vel þar sem það sé flatlent. En margir aðrir staðir séu nú til skoðunar. Meðal annars sveitarfélög á Norður- og Austurlandi. "Við heyrum í mörgum sveitarstjórnarmönnum og þeir eru spenntir fyrir þessu. Enda hafa sveitarfélög verið viljug til að leggja fé í uppbyggingu þessa þráðlausa kerfis."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×