Lífið

Sækir hitann í heimilistækin yfir

"Það er einhver sjarmi við ákveðið horn í húsinu mínu. Þetta er í eldhúsinu þar sem eldavélin, uppþvottavélin og kaffivélin mætast í níutíu gráðu horni. Þetta er hornið sem ég halla mér upp að og sæki hitann úr eldavélinni og uppþvottavélinni sem yljar bakhlutanum á mér meðan ég teygi mig í kaffisopann," segir Ilmur Stefánsdóttir myndlistarkona, en eldhúsið er í sérstöku uppáhaldi hjá Ilmi og þá sérstaklega fyrrgreint horn. "Við hjónin fengum í brúðkaupsgjöf á sínum tíma forláta kaffivél sem kostaði formúu fjár og þarna í horninu þykir mér gott teygja mig í vélina og sötra kaffisopann, sérstaklega þegar ég er búin að elda, ganga frá og setja í uppþvottavélina." Hugmyndir segist Ilmur þó sækja annars staðar í húsið, en þær fæðast flestar þegar hún leggst með börnum sínum og svæfir á kvöldin. "Sú stund hefur eitthvað með friðsæld að gera og þá sérstaklega þá staðreynd að ekkert áreiti er tengt þeirri stund. Þá vilja hugmyndirnar hellast yfir mig." Ilmur notar hornið góða til annarra hluta en hugmyndaöflunar, sem hún segir vera rými fyrir hvíld og afslöppun. "Ég leita einfaldlega bara í þetta horn og kann enga sérstaka skýringu á því. Stellingin er jú standandi en afskaplega þægileg engu að síður. Í horninu góða er bara rými fyrir einn og sú staðreynd verður að vera fyllilega á hreinu. Bak við mig tróna skápar, en í beinni sjónlínu gefur svo að líta eldhúsglugga sem er gardínulaus og gaman er að horfa gegnum þegar ég heimsæki hornið góða."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×