Lífið

Andarunginn í Lækjargötu

Litli ljóti andarunginn í Lækjargötunni hefur áunnið sér fastan sess í miðbæjarlífinu. Hann er einn þeirra staða sem hefur verið nánast óbreyttur frá upphafi. Andrúmsloftið á Litla ljóta er ljúft og notalegt og alltaf hægt að ganga þar að góðum og fjölbreyttum matseðli vísum, svo og kósí og hlýlegu umhverfi. Tónlistin er lágstemmd og hægt að sitja og spjalla fram á nótt, en staðurinn er opinn til þrjú um helgar. Nú hefur Litli ljóti andarunginn verið stækkaður og opnaður nýr salur sem tekur um 50 manns í sæti. "Við erum ofsalega ánægð með útkomuna," segir Sigurveig Káradóttir, einn eigenda staðarins. "Salurinn er í anda þess sem hér er fyrir, og við vorum svo heppin að fá Stefán Ingólfsson arkitekt til að hanna bygginguna. Hann gerði þetta sérstaklega skemmtilega og við innréttuðum svo í okkar stíl og höldum fast í þá kósí og skemmtilegu stemmingu sem hér er fyrir. Hugmyndin er að fólk geti leigt salinn fyrir minni veislur og uppákomur, en hann hentar líka vel fyrir upplestrarkvöld og litla pólitíska fundi," segir Sigurveig hlæjandi. "Við erum opin fyrir öllu og um að gera að hafa samband við okkur ef fólk langar að fara í miðbæinn og gera sér glaðan dag." Sigurveig bendir á að þar sem salurinn er núna hafi áður verið port með skúrum í niðurníðslu. Nýi salurinn bæti því ásýnd miðbæjarins. "Það er alltaf verið að tala um að gæða miðbæinn lífi og þetta er einn liður í því." Þess má geta að eigendur Litla ljóta andarungans vantar nafn á nýja salinn. "Ef fólk er með skemmtilega hugmynd þá er um að gera að láta okkur vita."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×