Lífið

Sígildur kollur með gæru

Árið 1972 hannaði og smíðaði Sigurður Már Helgason koll sem sló í gegn og varð einhver vinsælasta fermingargjöf allra tíma. Að auki hannaði Sigurður umbúðir utan um kollinn og fékk verðlaun fyrir, enda umbúðirnar sérlega sniðugar og handhægar, með sérstöku handfangi. Stóllinn er nú orðinn klassík og er á ferðalagi víða um heim á sýningum. Hann er líka til á tveimur söfnum, annars vegar í Noregi og hins vegar í Svíþjóð. Setan á kollinum er úr íslenskri gæru og fæst í öllum regnbogans litum. Sigurður var í húsgagnahönnun á sínum tíma en segist undanfarin ár aðallega hafa hannað leikföng handa barnabörnunum sínum. Hann sér líka um smíðavelli barna fyrir ÍTR. Nú er Sigurður þó að hugleiða nýja hönnun á kollinum fyrir Dorrit Moussaieff forsetafrú. "Hún var að spyrja hvort ég ætti hann í fleiri útfærslum og ég hef verið að hugsa um hvernig ég gæti útfært hann. Ég held ég sé kominn með það," segir Sigurður. Sigurður er mikill listasmiður og ákvað einhverju sinni að smíða eitthvað sem væri svo sérstakt að það væri ekki til í henni stóru Ameríku. "Konan hélt ég væri orðinn klikkaður en ég smíðaði flugvél eins og enginn hefur gert áður og flaug með hana alla leið til Seattle handa sonarsonunum," segir Sigurður og hlær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×