Innlent

Hundruð blaðbera skemmtu sér saman

Árshátíð blaðbera Fréttablaðsins var haldin á laugardaginn í Háskólabíói. Margt var um manninn á hátíðinni og sá Jónsi, söngvari hljómsveitarinnar Í svörtum fötum, um veislustjórn, ásamt því sem hann kom fram með hljómsveitinni. Blaðberar Fréttablaðsins eru á öllum aldri og hlutu 200 blaðberar verðlaun fyrir framúrskarandi vinnu og dugnað. Meðal vinninga voru tölvur og Friends-spilið. Hátíðin lagðist vel í blaðberana og vakti hljómsveitin mikla lukku. Sigríður Inga Eysteinsdóttir hóf feril sinn sem blaðberi núna í nóvember og er hún mjög ánægð með nýja starfið. "Mér finnst þetta fínt starf og ekkert erfitt að vakna, þetta venst bara." Kristinn Sveinsson er búinn að vinna fyrir blaðið í tvö og hálft ár og erfiðast finnst honum að drífa sig af stað á morgnana. Hann var þó ekki nógu sáttur við það að ekkert væri dansgólfið: "Mér finnst vanta ballgólf því Í svörtum fötum er frábær hljómsveit og það ætti að vera hægt að dansa við tónlistina þeirra."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×