Innlent

Fullkomið öryggi í augsýn?

Fullkomið umferðaröryggi gæti verið í augsýn, að mati Max Mosleys, forseta Alþjóðabifreiðasambandsins. Eftir því sem tækninni fleygir fram verður öryggið meira og það felst ekki síst í því að taka völdin af ökumanninum. Max Mosley er þekktur í bílaheiminum, en hann er forseti alþjóða bílasambandsins FIA og fyrrverandi kappaksturskappi. Hann er jafnframt meðal forvígismanna EuroNCAP, sem eru samtök sem annast prófanir á bílum og gefa þeim stjörnur í samræmi við hversu öruggir þeir eru. Hann segir öryggisreglur EuroNCAP ganga mun lengra og vera harðari en þær reglur sem Evrópusambandið til að mynda hefur samþykkt. Líkurnar á banaslysi séu um 36% minni í bíl sem hlýtur fimm stjörnur heldur en í bílum sem standist Evrópulöggjöfina. Næsta skref í öryggisþróun er að mati Mosley annars konar öryggishugsun. Nú þegar séu til búnaður á borð við ESP-stöðugleikastýringu og sjálfvirkur bremsubúnaður þegar bíltölvan skynji að árekstur sé óumflýjanlegur. Þegar fram í sæki munum við sjá meiri þróun í þá átt að bílarnir keyri sjálfir. Það sé hins vegar spurning um vilja stjórnvalda hvenær slíkt gerist. Tæknin sé fyrir hendi, en það sé val fólks hvenær það vilji halda áfram í tækniþróun og hvenær ekki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×