Innlent

Eiturefni geymd í Reykjavík

Ekki hefur fundist staður á landinu til að urða PCB-efni sem nú eru geymd í sekkjum á lóð Hringrásar í Reykjavík. Umhverfisráðuneytið hefur leitað að hentugum urðunarstað í nokkur ár en án árangurs. Efnið getur verið hættulegt mönnum og dýrum berist það í fæðukeðjuna. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, segir að efnið sé geymt á viðunandi hátt við Hringrás og engin fyrirsjáanleg hætta sé á ferðum. Hins vegar sé ljóst að þetta sé ekki varanleg lausn. Hann segir að ráðuneytið hafi fundið nokkur svæði en vegna mótmæla landeigenda hafi verið fallið frá því að urða efnin þar. Því sé enn óljóst hvenær takist að finna hentugri urðunarstað. Árið 1989 greindist eiturefnið PCB í jarðvegi á athafnasvæði Hringrásar og árið 1993 var fullyrt að mengunin væri eitt mesta umhverfisvandamál sem komið hefði upp hér á landi. Þá sagðist Katrín Fjeldsted, þáverandi formaður heilbrigðisnefndar Reykjavíkur, vera þeirrar skoðunar að fyrirtækinu yrði að útvega aðra og hentugri lóð til að uppfylla ströngustu kröfur um mengunarvarnir. Árið 2001 kom fyrirtækið 250-300 rúmmetrum af þessum mengaða jarðvegi fyrir í sekkjum sem standa enn á lóð fyrirtækisins. Þá þótti of dýrt að senda jarðveginn úr landi eða steypa þró og loka henni eins og tíðkast víða erlendis. Starfshópur á vegum umhverfisráðuneytisins var þá skipaður til að finna stað þar sem hægt væri að urða spilliefni á borð við þessi. Hann átti að skila niðurstöðu í lok árs 2001. Magnús Jóhannesson segist ekki vita um fleiri svæði þar sem PCB-efni séu geymd á landinu en þau hafi safnast upp hjá Hringrás vegna þess að fyrirtækið stundi brotajárnsvinnslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×