Innlent

Hugurinn hjá þeim sem flúðu

Hringrás varð fyrir verulegu tjóni í brunanum í fyrrinótt að mati Einars Ásgeirsson, framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hann segir að tryggingarfélag sé að meta tjónið og ekki sé hægt að slá neinu föstu sem stendur. Það sé líka aukaatriði í málinu þar sem hugurinn sé hjá fólkinu sem þurfti að yfirgefa heimili sín í tengslum við brunann. Einar segir að í kjölfar þessa verði farið yfir öryggisatriði með forvarnardeild slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til að tryggja að fólk í nágrenninu geti sofið öruggt um nætur. Hann segist hafa verið í viðræðum við eldvarnareftirlitið eftir að það lýsti yfir áhyggjum sínum yfir dekkjahrúgunni í sumar. Það hafi því miður dregist að fjarlægja hana. Nú sé hins vegar búið að semja við Sorpu og dekkin sem eftir eru fari þangað. Einar segist skilja vel að íbúar í nágrenni fyrirtækisins beri blendnar tilfinningar til þess á þessari stundu. Hins vegar verði allt kapp lagt á að koma fyrirtækinu aftur í gang um leið og heimild fáist frá slökkviliði og umhverfi- og heilbrigðisstofu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×