Innlent

Varaformaður veldur írafári

Sjálfstæðismaðurinn Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, olli talsverðu írafári á Alþingi í gær þegar hann lýsti því yfir að nýundirritaðir samningar kennarasambandsins og sveitarfélaganna væru skelfilegir, eins og hann orðaði það. Dró þingmaðurinn upp dökka mynd af horfum í efnahagsmálum. Allar stéttir myndu nú krefjast sömu hækkunar og kennarar, til dæmis væru samningar nærri allra opinberra starfsmanna lausir. Óttaðist Einar Oddur verðbólguskriðu sem myndi leggja heimilin í ösku og hinir fátækustu yrðu verst úti. Manaði Einar Oddur þingmenn til að nefna þá stétt sem ekki myndi sigla í kjölfar kennara: "Opinberir starfsmenn mega ekki fá krónu umfram ASÍ." Skírskotaði hann sérstaklega til þess að útlit væri fyrir að lífeyrir starfsfólks á almennum vinnumarkaði yrði senn skertur á sama tíma og opinberir starfsmenn hefðu allt sitt á þurru. Helgi Hjörvar, Samfylkingu, svaraði Einari Oddi og sagði að ef skriða hefði komist af stað hefði það verið Geir H. Haarde fjármálaráðherra sem hefði ýtt henni með samningum við lækna, hjúkrunarfræðinga og kennara: "Íslenska þjóðin getur unnt kennurum að fá á nokkrum árum 5% umfram aðra. Samningar kennara ógnar ekki stöðugleikanum. Það gerir hins vegar fjárlagafrumvarpið." Benti Helgi á að kostnaðarauki utanríkisráðuneytisins væri einn milljarður á einu ári á sama tíma og kostnaðarauki vegna samninganna væri 700 milljónir. Sigurður Kári Kristjánsson, flokksbróðir Einars Odds, fékk svo upplýst hjá varaformanni fjárlaganefndar að lífeyrisskuldbindingar ríkisins vegna samninganna væru 10 milljarðar. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sagði að sér blöskraði málflutningur Einars Odds: "Það nær ekki nokkurri átt að draga grunnskólakennara eina til ábyrgðar fyrir vanda í efnahagsmálum."


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×