Lífið

Gaman að vinna með gler

Við Fálkagötu 30b í Reykjavík inní þröngu húsasundi er lítil, sæt vinnustofa og gallerý sem tilheyrir fyrirtækinu Íslensk list. Þar hefur Dröfn Guðmundsdóttir, myndhöggvari og eigandi fyrirtækisins aðstöðu. Húsið lætur ekki mikið yfir sér að utan en er vægast sagt eins og ævintýraland að innan. "Ég útskrifaðist árið 1993 úr Mynd- og handíðaskólanum sem myndhöggvari og byrjaði þá að vinna með gler. Síðan þá hef ég unnið nær eingöngu með gler enda einstaklega gaman að vinna með það," segir Dröfn. Dröfn stofnaði fyrirtækið árið 2000 og hefur bæði haldið stutt glerlistarnámskeið sem og hún býður fólk velkomið í gallerý sitt þar sem hún hefur vörur sínar og listaverk til sölu. Dröfn býr til ýmislegt úr gleri eins og til dæmis glerkort, hálsmen, nælur, myndir og alls kyns skálar. Hún býr einnig til matarstell sem hafa gengið vel og eru mjög fjölnota þar sem venjulegur matardiskur getur einnig nýst sem ostabakki eða undir kerti. Annars eru það bakkarnir hennar sem njóta mestra vinsælda. "Bakkarnir eru allt frá fimmtíu sentímetra langir og upp í einn meter. Þeir hafa selst alveg rosalega vel enda bjóða þeir uppá marga möguleika. Það er ekkert skraut á þeim og eru þeir hálf gegnsæir þannig að hægt er að nota þá með hvaða dúk sem er. Þeir geta bæði nýst sem bakkar undir snittur, kökur eða kerti enda mjög látlausir," segir Dröfn en fallegur fjólublár gljái er á bökkunum sem gefur þeim undraverðan svip. Dröfn býr líka til sérstaka aðventubakka sem seljast vel fyrir jólin. "Bakkarnir passa einmitt undir fjögur kerti og skreytingu. Síðan er mjög sniðugt að setja til dæmis epli í staðinn fyrir kerti og skipta einu epli út fyrir kerti á hverjum sunnudegi í aðventu. Smám saman hverfa eplin og kertin taka við. Þessi bakkar eru í stöðugri framleiðslu hjá mér en seljast mest um jólin og eru einnig vinsælir í brúðargjafir." Dröfn er aldeilis komin í jólaskapið og lætur ekki staðar numið við aðventubakkana. "Ég bý líka til jólakort með jólastjörnum, jólasveinum og jólatrjám sem eru voðalega falleg. Einnig geri ég jólaskraut úr gleri sem hægt er að setja á jólatré. Ég vil hafa formin mín einföld enda er ég ekki mikil skrautkona." Vinnustofan og gallerýið er opið á miðvikudögum og fimmtudögum frá 15 til 18 en hægt er að panta tíma hjá Dröfn á öðrum dögum í síma 661 1144. Minnsta mál er fyrir Dröfn að hlaupa yfir í vinnustofuna þar sem hún býr í næsta húsi. Einnig geta áhugasamir skoðað heimasíðu hennar, icelandicart.is.
Bakkarnir sem Dröfn gerir eru allt frá fimmtíu sentímetrum og uppí einn meter að lengd. FleiriMynd/Valli
Dröfn gerir falleg jólakort úr gleri með alls konar myndum. FleiriMynd/Valli





Fleiri fréttir

Sjá meira


×