Innlent

Dræmt hljóðið í gærkvöldi

"Það er auðvelt fyrir sveitarfélögin að ganga að þessu ef þau hafa áhuga á að koma skólunum í gang á vitrænan hátt," sagði Eiríkur Jónsson, formaður KÍ, síðdegis í gær og taldi æskilegt að gerðardómur liti á miðlunartillöguna sem gólf fyrir frekari hækkanir. "Fólk hefur verið dæmt í nauðungarvinnu. Það er búið að dæma það inn í skólana á kjörum sem það var búið að hafna. Gerðardómur sem væri undir þessari miðlunartillögu eða jafn henni væri úrskurður gegn vilja nærri því allra kennara. Þetta er neyðarástand. Við viljum bara kanna hvort þeir eru tilbúnir að gera eitthvað til að lágmarka þennan skaða og koma skólunum í gang að einhverju leyti," sagði Eiríkur og taldi engan hvata fyrir sveitarfélögin að semja núna. "Ég geri mér hins vegar vonir um að einhver sveitarstjórn hafi þann kjark að ganga fram fyrir skjöldu og semja beint um kjör í sínu sveitarfélagi þannig að skólastarf geti hafist einhvers staðar í eðlilegri mynd." Gunnar Rafn Sigurbjörnsson, formaður launanefndar sveitarfélaga, reyndi að vera bjartsýnn en taldi ólíklegt að samningar tækjust í gærkvöld. Það væri meiri von á þeirri viku sem væri til stefnu. "Þróunin er að sumu leyti úr okkar höndum en okkur ber að halda áfram. Lögin gefa okkur frest til að reyna til þrautar. Þær forsendur sem Alþingi hefur gefið gerðardómi hljóta að vera leiðbeinandi fyrir þá vinnu sem við þurfum nú að takast á við. Vísbendingar eru um að taka mið af kjörum annarra sambærilegra starfshópa. Við eigum einnig að taka tillit til almennrar launaþróunar og auðvitað ber okkur að gæta að hinum efnahagslega veruleika, að varðveita stöðugleikann. Þetta kemur fram í þeim forsendum sem gerðardómi er ætlað að starfa eftir. Við hljótum að taka mið af því í okkar störfum," sagði Gunnar Rafn.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×