Innlent

Allir dæmdir í 2 1/2 árs fangelsi

Sakborningarnir í líkfundarmálinu svokallaða, Grétar Sigurðarson, Jónas Ingi Ragnarsson og Thomas Malakauskas, voru dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Þeir voru ákærðir fyrir að koma Litháanum Vaidas Juceviciusi ekki til hjálpar í neyð, ósæmilega meðferð á líki hans og innflutning á tæplega 224 grömmum af amfetamíni. Jucevicius kom til Íslands í byrjun febrúar á þessu ári með fíkniefnin innvortis en gat svo ekki skilað þeim af sér. Það varð honum að bana og í kjölfarið fluttu þremenningarnir lík hans austur á Neskaupstað og sökktu því þar í höfnina, eftir að hafa stungið göt á það og fest við það keðjur og bobbinga til að líkið sykki.  32 daga gæsluvarðhald, sem mennirnir þrír sátu í meðan rannsókn málsins fór fram, kemur til frádráttar dómnum. Í dómsorði segir að hinir ákærðu hafa ekki áður gerst sekir um refsilagabrot. Fíkniefnabrot þeirra eru talin beinast gegn mikilsverðum almennum hagsmunum. Dómurinn var þrískipaður og segja dómararnir að það hljóti að teljast einkar kaldrifjað af þeim Grétari, Jónasi og Thomasi, að eftir að Vaidasi Juceviciusi hefði snöggversnað í ferðinni út á Keflavíkurflugvöll, að þeir skuli ekki hafi brugðist við með því að aka honum rakleiðis á sjúkrahús því þeim hafi ekki geta dulist að honum var bráður lífsháski búinn. Þá álítur dómurinn að það hafi verið smánarlegt tiltæki hjá hinum ákærðu, vegna fjölskyldu og vina Juceviciusar, að láta lík hans hverfa sporlaust með því að sökkva því í höfnina í Neskaupstað. Loks hafi meðferð þeirra á líkinu verið hraksmánarleg. Grétari er auk þess gert að þola upptöku á riffli, lásboga, kylfu, sex fall- og fjaðurhnífum og kasthníf.  


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×