Lífið

Fyrsta húsið afhent á Austurlandi

Íslenskir aðalverktakar hafa afhent fyrsta húsið sem fyrirtækið byggir á Austurlandi. Húsið er um tvö hundruð fermetra einnar hæðar einbýlishús með bílskúr og stendur við Vallargerði 17 á Reyðarfirði. Alls hefur Íslenskum aðalverktökum verið úthlutað lóðum undir 151 íbúð í Bakkagerði á Reyðarfirði. Fyrirtækið hefur í samvinnu við Fjarðabyggð gert breytingar á skipulagi sem fyrir lá af hverfinu með það í huga að þétta þá byggð sem fyrir er og auka fjölbreytileika í gerðum íbúða. Í Bakkagerði verða samkvæmt gildandi skipulagi 55 einbýlishús, 44 íbúðir í raðhúsum og parhúsum og 52 íbúðir í fjölbýlishúsum. Fjölbýlishúsin verða tvær til þrjár hæðir með fimm til sextán íbúðum. Íslenskir aðalverktakar hafa einnig fengið úthlutað lóðum fyrir 123 íbúðir í Votahvammi á Egilsstöðum. Fyrirtækið hefur látið deiliskipuleggja skjólgott og fjölbreytt íbúðahverfi milli núverandi byggðar og Eyvindarár. Skipulag svæðisins samanstendur af fimm húsaþyrpingum og tólf sérstæðum lóðum. Þyrpingarnar mynda sameiginlegt miðjurými með leiksvæði og útivistarsvæði og í hverri þyrpingu eru sameiginleg bílastæði. Göngustígar verða lagðir um svæðið sem tengjast göngustígum í núverandi íbúðabyggð. Eitt leiksvæði verður á svæðinu og verður það tengt nærliggjandi lóðum með göngustígum. Framkvæmdir við gatnagerð hefjast í nóvember. Á svæðinu verða tíu einbýlishús, 41 íbúð í raðhúsum og parhúsum og 72 íbúðir í fjölbýlishúsum. Fjölbýlishúsin verða þriggja hæða með tólf íbúðum hvert.
Byggingarsvæðið á Egilsstöðum verður við Eyvindará.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×