Lífið

Uppáhaldshúsgagn Harðar Áskels

"Ég spurði son minn fjórtán ára að því í gær, eftir að þú hringdir, hver hann teldi að væri uppáhaldsstaður minn í húsinu. Hann var fljótur til svars og sagði að það væri örugglega við píanóið," segir Hörður Áskelsson tónlistarmaður brosandi um leið og hann býður til stofu. Þar á píanóið heiðurssess í horni. Það kemur heldur ekki á óvart þegar Hörður viðurkennir að hann sé þaulsætinn við hljóðfærið ef hann hafi tíma til og því megi segja að píanóbekkurinn sé hans helsta hægindi á heimilinu. En svo bendir hann jafnframt á gamlan og góðan sófa sem hann kveðst hafa dálæti á. "Sófinn þessi er mikill vinur minn enda fleygi ég mér þar oft út af, stundum með góða bók að lesa en langoftast rennur mér í brjóst þegar ég leggst þar fyrir," segir tónlistarmaðurinn. Hús Harðar stendur á sjávarlóð í vesturbænum í Reykjavík enda segir hann aðspurður um sjónvarpsáhorf sitt úr sófanum góða: "Þar sem við búum við hafið þá þarf ég eiginlega ekki annað til að horfa á."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×