Innlent

Samningar virðast ekki halda

Erfiðar samningaviðræður við ýmsa hópa opinberra starfsmanna og fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar benda til þess að forsendur kjarasamninga haldi ekki og þeim verði sagt upp í lok komandi árs. Þetta sagði Halldór Björnsson, fráfarandi formaður Starfsgreinasambandsins, í setningarræðu ársfunds sambandsins í gær. Hann sagði samningana byggja á tveimur forsendum, annars vegar hóflegri verðbólgu á samningstímanum og hins vegar að aðrir samningar á vinnumarkaði yrðu sambærilegir. "Ég er satt að segja ekkert of bjartsýnn á að þessir samningar haldi. Ekki er útséð um hvernig reiðir af í samningaviðræðum sem standa yfir, en við getum bætt við okkar samninga eða sagt þeim upp ef aðrir semja um meira. Síðan er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar með þeim hætti að ekki eykst bjartsýnin. Þar er hreinlega gert ráð fyrir meiri verðbólgu en verðlagsforsendur samningsins gera ráð fyrir. Þannig virðist ríkisstjórnin annað hvort hafa misskilið kjarasamningana, eða hún kærir sig kollótta um frið á vinnumarkaði."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×