Innlent

Samstarf við írsk flugmálayfirvöld

Ritað hefur verið undir nýtt samkomulag um undirbúning samstarfs flugmálastjórna Írlands og Íslands um fjarskiptaþjónustu á Norður-Atlantshafi. "Flugmálastjórn Íslands hefur komið á fót nýju hlutafélagi, Flugfjarskiptum ehf., til að taka við öllum rekstri flugfjarskiptamiðstöðvarinnar í Gufunesi. Þetta gerir kleift að taka upp samstarf við írsku flugmálastjórnina, sem rekur samsvarandi fjarskiptastöð í Ballygirreen skammt frá Shannon-flugvelli auk þess að gera starfsmönnum mögulegt að takast á við fjölbreyttari verkefni," segir í tilkynningu Flugmálastjórnar. Gert er ráð fyrir að samræmdur rekstur fjarskiptastöðvanna tveggja hefjist í apríl á næsta ári og verði á tilraunastigi í eitt ár. "Jafnframt verður unnið að því að skilgreina með hvaða hætti best væri að standa að áframhaldandi rekstri í framtíðinni. Markmiðið er að tryggja notendum betri fjarskiptaþjónustu í flugi yfir Norður-Atlantshaf og lægri kostnað þegar fram líða stundir," segir í tilkynningu. Írska flugmálastjórnin á eftir að festa kaup á sams konar skeytaafgreiðslubúnaði og verið er að taka í notkun í Gufunesi um þessar mundir, en búnaðurinn er þróaður hér á landi af Flugkerfum hf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×