Innlent

Eitt stærsta fíkniefnamál sögunnar

Sex Íslendingar hafa verið handteknir og sitja fjórir í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á umfangsmesta fíkniefnamáli síðustu ára. Ásgeir Karlsson, yfirmaður fíkniefnadeildarinnar í Reykjavík, vill á þessu stigi ekki gefa upp heildarmagn fíkniefnanna en efnin fundust í þremur sendingum sem allar komu frá Hollandi. Upphaf málsins var þegar tæplega þrjú kíló af amfetamíni og nokkurt magn af kókaíni fundust um borð í Dettifossi, skipi Eimskipafélagsins, í mars. Í framhaldinu hófu lögreglan og tollgæslan í Reykjavík rannsókn sem leiddi til þess að tekið var mikið magn af amfetamíni sem fannst í vörusendingu í einu skipa Eimskips í júlí. "Við greinum ekki frá því að svo komnu hversu mikið magnið er en það er verulegt. Með því mesta sem þekkst hefur," segir Ásgeir Karlsson. Fyrir rúmri viku fundust síðan tvö þúsund skammtar af LSD í póstsendingu. Vestmannaeyingur um þrítugt var handtekinn á föstudag vegna LSD-sendingarinnar. Sama dag var Íslendingur sem dvalið hefur í Hollandi um nokkra vikna skeið handtekinn í tengslum við amfetamínið sem fannst í júlí og LSD-sendinguna. Að auki voru þrír handteknir hér á landi á föstudag. Þar sem maðurinn dvaldi í Hollandi er annar Íslendingur búsettur. Við húsleit á mánudag var sá handtekinn en í íbúðinni fundust rúmt kíló af kókaíni og kannabisplöntur í ræktun. Þeir sem hafa verið handteknir eru fimm karlmenn og ein kona, öll á fertugsaldri. Konan og þrír mannanna voru handtekin á Íslandi. Þau hafa öll verið úrskurðuð í gæsluvarðhald, þrjú í þrjár vikur og einn í tvær vikur. Mennirnir sem handteknir voru í Hollandi eru í haldi lögreglunnar en þar í landi getur lögreglan haldið fólki lengur án gæsluvarðhaldsúrskurðs. Fáist úrskurður um gæsluvarðhald munu yfirvöld hér á landi fara fram á að mennirnir verði framseldir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×