Menning

Farsímanotkun ekki heilsuspillandi

Yfirvöld geislavarna á Norðurlöndum hafa sammælst um að engar vísindalegar vísbendingar séu um að farsímanotkun geti verið skaðleg heilsu fólks, hvorki geislun frá símtækjunum sjálfum né heldur sendum. Enda noti tækin sendistyrk neðan viðmiðunarmarka og grunngilda sem Alþjóða geislavarnaráðið um ójónandi geislun (ICNIRP) hefur mælt með. "Sjálfum finnst mér alveg þörf á að segja frá þessu til að slá á ótta fólks. Margir hafa óþarfaáhyggjur en vita nú að þessar stofnanir, sem væntanlega eru mjög ábyrgar, hafa sett fram þetta álit sitt," segir Þorgeir Sigurðsson, fagstjóri hjá Geislavörnum ríkisins. Fram kemur í áliti stofnananna að óvíst sé hvort börn og unglingar séu viðkvæmari fyrir geislun frá rafsegulsviði farsímatækja, fáar rannsóknir hafi verið gerðar á því. Nýleg samantekt Heilbrigðisráðs Hollands kemst þó að þeirri niðurstöðu að engar vísbendingar séu um að börn séu viðkvæmari fyrir geislun af útvarpsbylgjum en fullorðnir og því sé ekki þörf á sérstökum takmörkunum fyrir börn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×