Innlent

Ísland ítrekaði mótmæli sín

Íslensk stjórnvöld ítrekuðu mótmæli sín vegna sóknarstýringar rækjuveiða á hafsvæðinu vestan og sunnan Hvarfs á Grænlandi á ársfundi Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar (NAFO) sem haldinn var í Dartmouth í Nova Scotia í Kanada dagana 13. til 17. september. Ísland ætlar eftir sem áður að stjórna veiðunum einhliða með aflamarki, sem ákveðið verður á næstu mánuðum, segir í tilkynningu sjávarútvegsráðuneytisins. NAFO samþykkti óbreytta stjórn á veiðunum fyrir næsta ár og að fjöldi sóknardaga yrði sá sami og á þessu ári. "Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt sóknarstýringu á þessu svæði frá því að hún var tekin upp á árinu 1996 vegna efasemda um að hægt væri að stjórna veiðunum með sóknarstýringu og lagt til að veiðunum væri stjórnað með aflamarki," segir í tilkynningu. Íslensk skip hafa í mörg ár veitt rækju á NAFO-svæðinu en síðustu tvö ár hefur þar einnig verið veiddur úthafskarfi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×