Innlent

Sjómenn utan stéttarfélags

Útgerðarfyrirtækið Brim hefur stofnað sérstakt rekstrarfélag um ísfisktogarann Sólbak EA -7. Við breytinguna stendur skipið utan Landssambands íslenskra útvegsmanna. Sjómenn á skipinu starfa utan stéttarfélaga sjómanna. Við breytinguna fækkar sjómönnum í áhöfn. Skipið heldur á veiðar strax eftir löndun og hver skipverji fær einn hlut og margfeldi eftir stöðu um borð. Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, segir aðgerðirnar klárlega brjóta kjarasamninga: "Þetta stenst engin lög og verður tekið á málinu af fullri einurð samtakanna." Sævar segir Brim sennilega nota ákvæði í kjarasamningunum sem leyfi færri menn í áhöfn við tæknibreytingar. "Það eru engar tæknibreytingar um borð í þessu skipi þannig að kjarasamningar eru þverbrotnir og sjómenn hlunnfarnir." Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims hf., segir í fréttatilkynningu lengi hafa verið á þeirri skoðun að núverandi fyrirkomulag í samningum útvegsmanna og sjómanna sé komið í ákveðið öngþveiti. Sú leið sem útgerðin fari í samkomulagi við sjómenn verði háttalag samningsgerðar í framtíðinni. Drög samningsins hafi verið lögð fyrir LÍÚ, Samtök atvinnulífsins og sjómannasamtökin. Hugmyndirnar voru samþykktar af öllum en hafnað af sjómannasamtökunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×