Innlent

Umfangsmikið LSD smygl upplýst

Karlmaður á þrítugsaldri var úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald í dag í tengslum við umfangsmikið smygl á LSD ofskynjunarlyfinu. Fíkniefnin voru send til landsins frá Hollandi með pósti og komst upp um málið í vikunni með samvinnu lögreglu og tollgæslu í Reykjavík og lögreglu í Vestmannaeyjum. Ekki fæst uppgefið hjá lögreglunni í Reykjavík hversu stór sendingin var, nema að málið telst stórt. Stærsta LSD smygl sem tekist hefur að koma upp um hér á landi var 3000 skammtar árið 1997. Það þykir mikið og má til samanburðar nefna að sænska lögreglan lagði hald á þúsund skammta allt síðasta ár. Eins og fyrr segir vill lögreglan ekki gefa upp magnið sem nú var haldlagt, né hvort að þessi smygltilraun sé umfangsmeiri en sú sem komst upp um árið 1997. Fíkniefnin sem haldlögð voru í vikunni, voru á pappírsörkum sem vættar höfðu verið í LSD-sýru. Í gær var karlmaður um þrítugt handtekinn í Vestmannaeyjum í tengslum við málið. Hann var fluttur í gær frá Vestmannaeyjum á Bakkaflugvöll í Landeyjum þar sem Reykjavíkurlögreglan tók hann í sína vörslu. Maðurinn hefur nokkrum sinnum komið við sögu lögreglu áður vegna fíkniefnamála, en ekki í neinu máli jafn stóru þessu. Lögreglan fór í dag fram á að hann yrði úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald og varð Héraðsdómur Reykjavíkur við því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×