Innlent

Stórhýsi og verslunarmiðstöð

Framkvæmdir við 4.800 fermetra verslunarmiðstöð og tvö tíu hæða fjölbýlishús eru að hefjast á Akranesi. Byggingarnar munu rísa á svokölluðum Miðbæjarreit við Stillholt og var fyrsta skóflustungan tekin í fyrradag. Þá voru einnig undirritaðir samningar milli Akraneskaupstaðar og Skagatorgs, sem er eigandi lóðarinnar, um framkvæmdirnar. Gert er ráð fyrir því að verslunarmiðstöðin verði tilbúin í nóvember á næsta ári og annað stórhýsanna ekki síðar en í júní árið 2006. Framboð og eftirspurn eftir húsnæði ræður hvenær ráðist verður í byggingu síðara stórhýsisins. Framkvæmdirnar núna, sem eru þær mestu síðan Sementsverksmiðjan var byggð árið 1958, tengjast fyrirhugaðri stækkun álvers Norðuráls úr 90 þúsund tonnum í 180 þúsund tonn. Frá því Norðurál hóf starfsemi árið 1998 hefur mikil uppsveifla verið í atvinnulífinu á Akranesi og íbúum fjölgað úr 5.070 í 5.700. Búist er við enn frekari fjölgun íbúa á næstu árum vegna stækkunar álversins. Ekkert húsnæði hefur verið byggt sérstaklega fyrir verslun á Akranesi síðan árið 1970. Samkeppni í verslun hefur orðið sífellt harðari með tilkomu Hvalfjarðarganganna og er hinni nýju verslunarmiðstöð ætlað að bregðast við þeirri samkeppni. Skagatorg, sem stendur að framkvæmdunum, er í eigu Harðar Jónssonar, Gissurar og Pálma ehf. og Fjarðarmóta ehf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×